Sér batamerki í hagkerfinu

Úr Smáralind í Kópavogi.
Úr Smáralind í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Nýafstaðnir kjarasamningar kunna að auka umsvifin í hagkerfinu og þar með leiða til meiri hagvaxtar á árinu en gert hefur verið ráð fyrir í hagspám. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra en hann lýsir jafnframt yfir þeirri skoðun sinni botninum sé náð í efnahagsmálum.

Steingrímur fór yfir stöðu efnahagsmála á flokksráðsfundi VG í Reykjavík í gær, föstudag, og gaf kost á stuttu viðtali á milli dagskrárliða. Hann dregur efni ræðu sinnar og rökin fyrir því að landið sé að rísa saman svo:

„Ég fór yfir það og rökstuddi mitt mál í þeim efnum. Ég vísaði til ótal vísbendinga um það og ég held að það standi fyrir sínu. Ég tók auðvitað fram að það mætti ekki skilja það svo að ég væri þar með að segja að öll vandamál væru leyst og allt væri komið í himnalag. Það er auðvitað ekki svo.

Ég held við eigum að láta það eftir okkur að gleðjast yfir batamerkjunum sem við sjáum um leið og við erum raunsæ á það að glímunni er ekki lokið. Við erum áfram að kljást við og vinna okkur út úr miklum erfiðleikum.“

Gerir sér vonir um meiri hagvöxt

- Hver eru skýrustu merkin um að okkur sé farið að ganga betur?

„Ég myndi í fyrsta lagi segja að allar hagspár ganga út á hagvöxt á þessu ári, svona tvo og hálft prósent, plús, mínus. Ég geri mér vonir mun um að spár muni hækka frekar þegar menn meta áhrif kjarasamninga sem ég hygg að þýði aukin umsvif í efnahagsmálum.

Síðan er atvinnuleysi þrátt fyrir allt að láta undan síga. Það er að mælast 0,8-0,9 prósentum minna á hverjum mánuði heldur en fyrir ári. Við sjáum merki um aukna einkaneyslu. Það er að lifna yfir fasteignamarkaði. Við sjáum miklu fleiri nýskráningar bíla. Við sjáum landið vera að fyllast af ferðamönnum. Við erum að horfa fram á aflaaukningu, vonandi, hjá vissum stofnum. Það lítur vel út með loðnuvertíð.

Það eru góðar horfur fram undan með þorskinn. Það er búið að auka kvóta í karfa. Þannig að það er heldur að birta yfir sjávarútveginum og er hann þó kraftmikill um þessar mundir.“

- Er botninum náð?

„Já. Ég er alveg sannfærður um að það erfiðasta er að baki. Það birtir alltaf yfir þegar maður veit að hlutirnir eru farnir að þróast í rétta átt. Þetta verður auðvitað áfram heilmikil glíma og við erum ekki komin í land með hluti sem við þurfum áfram að takast á við, eins og að ná að gera ríkisfjármálin, opinber fjármál, sjálfbær á næstu misserum. Það verður áfram glíma. Í það heila tekið er þetta að langmestu leyti að þróast í rétta átt,“ sagði Steingrímur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert