Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vill að Alþingi komi saman í sumar til að afgreiða minna frumvarpið um sjávarútvegsmál ef ekki takist að ljúka afgreiðslu þess fyrir þinglok.
Jóhanna sagði þetta í samtali við RÚV. Jóhanna lýsti því yfir á Alþingi í vikunni að hún vildi að minna frumvarpið yrði að lögum fyrir þinglok, en fresta á þingfundum 9. júní samkvæmt starfsáætlun þingsins. Hún vill einnig að stærra frumvarpinu, sem fjallar um stefnubreytingu í sjávarútvegsmálum, verði vísað til nefndar fyrir þinglok og að nefndin geti þannig unnið í málinu í sumar og kallað eftir umsögnum um frumvarpið.
Ekki er búið að mæla fyir frumvörpunum. Engir þingfundir verða í næstu viku vegna þess að þá verður unnið í þingnefndum í þeim málum sem þar eru til umfjöllunar.
Jóhanna sagði í samtali við RÚV að takist ekki að klára minna frumvarpið fyrir þinglok og koma hinu frumvarpinu til nefndar verði að kalla þingmenn úr sumarleyfi.