„Við berum því þá einlægu von í brjósti að flokksfélagar okkar þrír sem sæti eiga á Alþingi og brugðist hafa svo herfilega lýðræðislegum leikreglum flokksins sýni auðmýkt, snúi af villu síns vegar, og fylki sér í raðir lýðræðissinna,“ segir í ályktun bæjarmálaráðs VG í Hafnarfirði um brotthvarf þremenninganna.
Umrædd tilvitnun er sótt í ályktunina „VG harmar hegðun þremenninganna“ en þar segir orðrétt:
„Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík dagana 20. - 21. maí 2011 harmar þá ákvörðun þriggja alþingismanna, er kjörnir voru til setu á Alþingi sem fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs árið 2009, að brjóta í berhögg við ákvarðanir stofnanna flokksins um stuðning við ríkisstjórn vinstriflokkanna og greiða atkvæði með vantraustsstillögu gegn henni. Sú ríkisstjórn sem nú situr er ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Samfylkingarinnar. Ein meginforsenda þess að ríkisstjórn þessi var mynduð var lýðræðisleg ákvörðun stofnanna VG, svo ætti einnig að vera um framhald hennar.“
Brotthvarfið „hörmulegur atburður“
Þá tekur við greinargerð en hún er svohljóðandi:
„Þrír flokksfélagar VG hafa nú misnotað það traust er til þeirra var borið af öðrum flokksfélögum í Alþingiskosningum 2009 og þá aðstöðu sem þeir komust í með setu sinni á Alþingi vegna niðurstöðu kosninganna. Þeir hafa þverbrotið gegn lýðræðislegum vilja og mikilvægustu ákvörðunum stofanna VG á þessu kjörtímabili.
Í aðdraganda kosninganna 2009 lagði fjöldi flokksmanna VG um allt land nótt við nýtan dag með það að markmiði að tryggja flokknum sem flesta fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem þar ynnu að markmiðum flokksins. Markmiðum grundvölluðum á lýðræðislegri ákvarðanatöku stofnanna flokksins hverju sinni.
Sá hörmulegi atburður hefur nú átt sér stað að þrír flokksfélagar hafa með hegðun sinni á Alþingi ákveðið að gefa flokkssystkinum sínum, óeigingjörnum stuðningi þeirra og fölskvalausum trúnaði langt nef, í trausti þess að þeir sitji sem fastast á Alþingi burtséð frá hegðun þeirra sjálfra eða lýðræðislega teknum ákvörðunum þeirra.
Það er einlæg sannfæring fulltrúa á flokksráðsfundi VG að allir félagar VG séu jafnréttháir og allir skuli þeir njóta sömu möguleika hvað það varðar að hafa áhrif á stefnu flokksins og mótun hennar og lúti í því, sem ávallt annars, lýðræðislegum leikreglum. Það er einnig einlæg sannfæring okkar að þeir sem gengið hafa til liðs við flokkinn hafi m.a. gert það á þessum forsendum. Við berum því þá einlægu von í brjósti að flokksfélagar okkar þrír sem sæti eiga á Alþingi og brugðist hafa svo herfilega lýðræðislegum leikreglum flokksins sýni auðmýkt, snúi af villu síns vegar, og fylki sér í raðir lýðræðissinna. Lýðræðissinna sem ávallt hljóta að hlíta lýðræðislega teknum ákvörðunum stofnanna flokksins, jafnvel þótt þær gangi gegn persónulegri sannfæringu þeirra um stundar sakir í einstaka málum - en hverfa af vettvangi að öðrum kosti.“