Þúsundir fylgdust með sýningunni

Nokkur þúsund manns fylgdust í dag með háloftasýning leikhópsins Fura dels Baus á Austurvelli. Hópurinn er frá Katalóníu. Vöktu listir hans aðdáun gesta, en sýningin er hluti af Listahátíð sem hófst í gær.

Hluti af sýningunni voru atriði sem fóru fram allt að fimmtíu metrum yfir höfðum áhorfenda, sem er töluvert hærra en byggingarnar við Austurvöll eru.

Flugyfirvöld breyttu venjulegum flugleiðum yfir miðborginni vegna mikillar hæðar atriðanna. Yfir sextíu íslenskir sjálfboðaliðar úr hópum; dansarar, sirkus- og íþróttafólk tók þátt í sýningunni með hópnum. 

La Fura dels Baus er stórveldi í heimi sviðslistanna sem hefur sýnt fyrir milljónir áhorfenda um víða veröld. Ögrandi og kraftmiklar sýningar þeirra hreyfa við áhorfendum og halda þeim helteknum frá fyrstu mínútu. Þessi framsækni fjöllistahópur spratt upp fyrir þrjátíu árum sem götuleikhús í Barcelona og vakti strax heimsathygli fyrir einstakar aðferðir sínar og sérstæða fagurfræði. Hópurinn flutti opnunaratriði á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 og hefur síðan sett upp leiksýningar, óperur og útiatriði með sínum hætti þar sem allir miðlar koma saman: leikhús, rokktónlist, loftfimleikar, kvikmyndir og dans. Stíll þessi á fjölda dyggra aðdáenda um víða veröld og hefur haft mikil áhrif á sviðslistafólk um allan heim. Aðferðir þeirra eru kenndar við þau og kallaðar „Furan tungumálið“. 

La Fura dels Baus ferðast stöðugt með verk sín og leggur mikla áherslu á samstarf við heimamenn á viðkomandi stað og virka þátttöku almennings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert