Vill að fleiri kettir verði geldir

mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Dýraverndunarráð skorar á almenning að reyna að sporna við offjölgun katta. Margrét Björk Sigurðardóttir líffræðingur, sem sæti á í ráðinu, hvetur fleiri kattaeigendur til að gera ketti ófrjóa.

Margrét segir að flækingsköttum sé að fjölga og víða sé mikið um flækingsketti eins og t.d í hrauninu í Hafnarfirði. Þetta séu kettir sem hafi strokið að heiman eða kettir sem hafi verið yfirgefnir. Eftir að kettirnir séu lagstir út séu þeir líklegir til að fjölga sér hratt.

Margrét hvetur kattaeigendur því til að gelda ketti. Eftir að þeir eru orðnir ófrjóir séu þeir líka rólegri og ólíklegri til að fara á flakk. Þeir séu þá heldur ekki að fjölga sér leggist þeir út. Margrét segir að gelding, sem dýralæknar framkvæma, sé ekki mikil aðgerð.

Margrét segir að það flokkist ekki undir góða meðferð á dýrum ef fjölgi í hópi flækingskatta. Þeir séu oft matarlitlir og slagsmál séu algeng meðal flækingskatta. Hún hvetur því almenning til að taka þátt í því að fækka slíkum köttum og árangursríkasta aðferðin sé að taka fleiri ketti úr sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert