Virkasta eldstöð landsins

Frá gosinu í Grímsvötnum 1996.
Frá gosinu í Grímsvötnum 1996. Rax / Ragnar Axelsson

Grím­svötn, í miðjum Vatna­jökli, eru virk­asta eld­stöð Íslands og meðal öfl­ug­ustu jarðhita­svæða jarðar.  Vitað er um tugi gosa frá land­námi sem tengj­ast Grím­svötn­um, en síðast gaus þar í nóv­em­ber árið 2004.

Frá alda­mót­um hef­ur gosið í Grím­svötn­um árið 1902, því næst 1922, 1933, 1934, 1938, 1945, 1954, 1983 og 1998 auk 2004. Al­gengt virðist vera að gos­in þar vari frá einni og upp í þrjár vik­ur, en sum Grím­s­vatnagos virðast þó hafa varað miklu leng­ur, eins og árið 1873, þegar virðist hafa gosið í sjö mánuði. Árið 1922 varaði gosið í þrjár vik­ur og tvær árið 1934. Gosið 1998 stóð í tíu daga en ekki nema fjóra daga 2004. 

Mikl­ar ham­far­ir hafa margsinn­is orðið í tengsl­um við eld­gos í Grím­svötn­um enda verður sam­spil hraunkvik­unn­ar und­ir jarðhita­svæðinu, við jök­ul­bráð sem viðheld­ur vatni í Grím­s­vatns­öskj­unni, til þess að jök­ul­hlaup fylgja jafn­an gos­um á þessu svæði. Fyrsta Skeiðar­ár­hlaupið sem heim­ild­ir eru til um varð árið 1629. Frá þeim tíma og til árs­ins 1934 komu hlaup á um tíu ára fresti að meðaltali. Voru þau allt að 67 rúm­kíló­metr­um að magni og gat rennslið náð allt að 40 þúsund rúm­metr­um á sek­úndu.

Árið 1996 varð gos milli Grím­s­vatna og Bárðarbungu, á svæði sem hlaut nafnið Gjálp. Sam­kvæmt Jarðvís­inda­stofn­un virðist það gos hafa markað upp­haf nýs virkni­tíma­bils í Vatna­jökli. Það stóð frá 30. sept­em­ber til 14. októ­ber og varð fjórða mesta eld­gos 20. ald­ar á Íslandi. Hlaup kom svo úr Grím­svötn­um nokkr­um vik­um síðar. 

Þegar síðast gaus, árið 2004, hófst gosið að kvöldi til þann 1. nóv­em­ber í suðvest­an­verðum Grím­svötn­um og náði gos­mökk­ur­inn í upp­hafi allt að 13 km hæð. Und­ir morg­un hafði gosið brot­ist í gegn­um ís­hell­una í Grím­svötn­um, en Skeiðar­ár­hlaup var þegar hafið áður en gosið hós­ft. Ösku­falls gætti á Möðru­dal að sögn bænda skömmu eft­ir að gosið hófst. Gosið varð kröft­ug­ast í upp­hafi en fljótt dró úr því og því lauk eft­ir um fjóra daga og varð því með styttri Grím­s­vatnagos­um sem sög­ur fara af. Ein­hverj­ar breyt­ing­ar urðu á flugáætl­un­um inn­an­lands vegna gos­makk­ar­ins og alþjóðlegri flug­um­ferð var beint suður fyr­ir landið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka