160 Þrændur strand vegna ösku

Gosmökkurinn frá Grímsvötnum.
Gosmökkurinn frá Grímsvötnum. Reuters

160 starfsmenn verktakafyrirtækisins Primahus í Þrándheimum í Noregi eru nú staddir á Íslandi í skemmtiferð vegna 20 ára afmælis fyrirtækisins. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að þeir eru nú strandaglópar hér vegna eldgossins í Grímsvötnum og framkvæmdastjórinn er áhyggjufullur yfir að starfsemin verði í lamasessi á mánudag.

„Við erum hér öll frá fyrirtækinu. Ætlunin var að við færum heim aftur í eftirmiðdaginn en nú vitum við lítið um hvað gerist. Við fáum ekki miklar upplýsingar," hefur norski miðillinn VG eftir framkvæmdastjóranum Gabriel Bjørseth.

Hann segir að verði áfram flugbann yfir Íslandi sé hætt við því að fjöldi framkvæmda tefjist þar sem starfsmennirnir komist ekki til starfa. „Það voru bara örfáir eftir í Noregi," segir Bjørseth.  Þeir áttu bókað flug með Icelandair í dag en flugfélagið tilkynnti um áttaleytið í morgun að allt síðdegisflug verði fellt niður.

„Þetta hefur auðvitað alvarlega afleiðingar fyrir okkur. Stærsta framkvæmdin okkar núna er 170 milljóna króna verkefni sem við þurfum að ljúka 1. júlí. Því verður frestað ef við komumst ekki heim." Hann bætir því líka við að margir úr hópnum geri nú ráðstafanir til að koma börnum sínum í áframhaldandi barnapössun á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert