2198 eldingar á klukkustund

Gosmökkurinn frá Grímsvötnum.
Gosmökkurinn frá Grímsvötnum. mynd/Andri Orrason

Aldrei áður hafa mælst jafn margar eldingar í eldgosi á Íslandi og í gosinu, sem hófst í Grímsvötnum í dag. 

Fram kemur á vef Veðurstofunnar, að 2198 eldingar mældust í gosinu frá miðnætti til klukkan 1 í nótt. 

Til samanburðar mældust mest í Eyjafjallajökulsgosinu 22 eldingar á einni klukkustund eða frá klukkan 8 til 9 þann 16. maí í fyrra. 

Á fyrstu 18 klukkustundum gossins hafa mælst um 15 þúsund eldingar en á 39 dögum Eyjafjallajökulsgossins mældust 790 eldingar með sama mælikerfi. Rannsóknir í Eyjafjallajökulsgosinu benda til að eldingar verði þegar mökkurinn rís það hátt að vatn í honum frýs.

Gosmökkurinn í Grímsvötnum fór í yfir 20 km hæð í gær. Í morgun hafði mökkurinn lækkað í um 15 km. Í dag hefur hann svo verið í um 10 km og svo aftur í 11 km.  

Veðurstofan segir staðfest, að  að gosið er í sjálfri öskjunni nærri þeim stað sem gaus 2004. Síðast hljóp úr Grímsvötnum 31. október 2010 og lítið vatn hefur safnast þar saman og þunnur ís er á öskjunni. Þegar gaus í Grímsvötnum 1998 og 2004 urðu jökulhlaup nokkru eftir að gos hófst. Ekki er talið að samsvarandi aðstæður séu uppi nú og því er ekki búist við jökulhlaupi.

Vefur Veðurstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert