Lilja Mósesdóttir þingmaður fagnar viðtali portúgalska tímaritsins Visaó við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Forsetinn leggur þar áherslu á sigur lýðræðisins yfir peningaöflunum og segir Lilja þennan málflutning án efa hafa áhrif í Suður-Evrópu þar sem ólgan er mikil vegna skuldakreppunnar.
Eins og fram kemur á fréttavef Morgunblaðsins í dag telur Ólafur Ragnar að almenningur eigi ekki að fá reikninginn vegna taps einkafyrirtækja.
„Eins og talað út úr mínu hjarta“
„Ég vissi af viðtalinu við hann í portúgölsku tímariti vegna þess að portúgölsk skáldkona skrifaði mér eftir að hafa lesið viðtalið við forsetann, Einar Má Guðmundsson og mig. Hún var mjög hrifin af málflutningi forsetans.
Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Ég er mjög stolt af því að eiga svona róttækan forseta sem þorir að koma með greiningu sem gengur þvert á viðhorf valdastéttarinnar og það sem maður heyrir frá stofnunum valdsins.“
- Er tekið eftir þessum ummælum erlendis?
„Já. Ég hitti til dæmis portúgalska þingmenn á Evrópuþinginu sem eru á þingi fyrir sósíalista. Þeim fannst alveg æðislegt að lesa viðtalið við Ólaf Ragnar. Þeir kunnu vel að meta að forsetinn skyldi lýsa svo róttækum skoðunum á fjármálakreppunni.“
Búsáhaldabyltingin hefur áhrif á borgarabyltinguna á Spáni
- Nú er verið að flagga íslenska fánanum í mótmælunum á Spáni. Telurðu að innistæða sé fyrir þeim málflutningi að búsáhaldabyltingin hafi haft áhrif erlendis?
„Já. Ég skynjaði það til dæmis þegar ég fór í fyrirlestraferð til Írlands skömmu eftir að ég gekk úr VG. Þar var mikill áhugi á því hvað hefði gerst á Íslandi eftir hrunið. Írar hafa mikinn áhuga á reynslu okkar og vilja vita hvað hefur gefist vel og líka hvað hefur mistekist,“ segir Lilja og víkur máli sínu til Spánar.
„Mér finnst áhersla Spánverja á lýðræði afar athyglisverð. Hún rímar við áherslu okkar í búsáhaldabyltingunni. Við höfum hins vegar verið upptekin af Icesave-deilunni og efnahagslegum afleiðingum samningsins.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þar sem ég stóð á Austurvelli í gær og fylgdist með ungum Spánverjum sem voru að vekja athygli á borgarabyltingunni á Spáni. Þá rifjaðist upp fyrir mér að okkar bylting gekk mikið út á kröfuna um lýðræðisumbætur,“ segir Lilja.