Sér varla tærnar með vasaljósi

Sól í öskuskýi
Sól í öskuskýi mbl.is/Jónas Erlendsson

„Vindáttin er djöfulleg, hún stendur beint af eldstöðinni niður í Fljótshverfið og maður kemst rétt svo með harmkvælum á milli húsa eftir minni. Ég var búin að heyra að þetta væri slæmt en maður skilur það betur núna þegar maður upplifir það á eigin skinni," segir Hannes Jónsson bóndi og hótelrekandi á Hvoli í Fljótshverfi.

Hvoll er að sögn Hannesar í um 40-50 km fjarlægð frá eldstöðinni og þangað stendur norðaustanátt. Hann segist alveg hafa sloppið við öskufall í Eyjafjallajökulsgosinu svo ljóst sé að þetta gos verði mun verra á svæðinu. „Það byrjaði að gægjast þetta dökka öskuský um 22 leytið í gærkvöldi og um miðnætti var skyggnið orðið svona kílómetarsfjarlægð. Svo þegar ég vaknaði um 7 í morgun var bara kolbikamyrkur, þá sá ég glitta í ljósskímu í ferðaþjónustuhúsinu sem er hérna í 100 metra fjarlægð frá mér en það hefur verulega dimmt síðan þá," segir Hannes sem giskar á að öskulagið sé orðið um einn og hálfur sentimetri.

Hannes segir ekkert hægt að fara út úr húsi en hefur áhyggjur af búpeningnum. „Ég er með lambfé og það er svo mikið borið að ég hef enga aðstöðu til að taka það allt á hús. Enda væri óðs manns æði að reyna þegar maður sér varla niður fyrir tærnar á sér með vasaljósi. Þó maður vildi reyna að gera eitthvað fyrir skepnurnar sínar þá væri það bara manndrápstilraun." Hann telur að svipuð staða sé uppi á næstu bæjum. „Sennilega  er um 70% af fénu borið og það er alveg klárt mál að það geta hýst allt það fé og öll þau lömb. Það húspláss eiga menn ekki til."

18 erlendir ferðamenn gista nú í farfuglaheimilinu að Hvoli. Hannes segir að nægur matur sé í húsinu og hann hafi brýnt fyrir þeim að halda sig innandyra. „Þeir eru svolítið alvörugefnir en ég er búinn að tala við þá og gera þeim grein fyrir því eftir lýsingunni að það er sénslaust að hreyfa sig, fyrst að ég get varla labbað hér 100 metra milli húsa þá ferðu ekkert á bíl því þetta er bara eins og blindaþoka."

Hann segist vona að öskufallið vari stutt eða vindáttin snúist. „Það væri mjög æskilegt að þetta minnkaði í kvöld, það væri afskaplega notalegt.  Þetta verður örugglega að stóru falli í fé ef þetta stoppar ekki í nótt. Þá er þetta slæm uppákoma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert