„Það er óvissa um framhaldið“

Aska er farin að falla á höfuðborgarsvæðinu.
Aska er farin að falla á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir óvíst hver þróun gossins verði næstu tvo dagana og mikilvægt sé að fylgjast vel með. Hann segir alls ekki útilokað að aska eigi eftir að berast til meginlands Evrópu þegar líður á vikuna.

„Það þarf að fylgjast náið með stöðunni. Það er óvissa um framhaldið. Það er ekkert í kortunum sem segir okkur að það sé að draga úr öskufalli utan jökuls. Ég held að það sé erfitt að meta atburðarrásina næstu tvo dagana.“

Freysteinn sagði að vindáttin væri breytileg og askan félli því ekki alltaf á sama stað. „Öskuskýið hefur verið að færast hægt nær Reykjavík í allan dag. Það er í takt við ríkjandi vindátt. Síðan getur það breyst eftir morgundaginn aftur.“

Freysteinn sagði ekki ástæða fyrir fólk á Suðurlandi að yfirgefa öskusvæðin þó staðan hafi verið slæm þar í dag. „Þetta er ekki lífshættulegt og það er held ég langfarsælast að bíða þetta af sér, sérstaklega þegar við höfum það í huga að vindáttin er síbreytileg næstu daga. Þetta er ekki eins og í Eyjafjallsjökulsgosinu þar sem var bara stífur strengur og mjög afmarkað svæði sem varð fyrir öskufalli. Nú dreifist þetta víðar og breytilegt er hvar áhrifin eru. Þar sem áhrifin eru mest í dag getur verið mun betra á morgun, en verður verra hjá einhverjum öðrum.“

Freysteinn sagði að fólk út í heimi horfði á það að áhrifin væru lagmest hér á landi. Vindáttin væri okkur óhagstæð, en hagstæð fyrir íbúa á meginlandi Evrópu.  „Stóra spurningin fyrir Evrópubúa er hvort það breytist þegar líður á vikuna og hvort kraftur gossins verði þá nægjanlegur til að aska dreifist suður til Evrópu.“

Freysteinn sagði að hafa  þyrfti í huga að þó að gosmökkurinn hefði lækkað frá því í gærkvöldi væri hann enn mjög kröftugur. „Hann er í yfir 10 km hæð og þannig mökkur getur dreift ösku suður til Evrópu ef vindáttir liggja þannig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka