Þúsund manns á hamfarasvæðinu

Aska er um allt á Mýrdalssandi.
Aska er um allt á Mýrdalssandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 1000 íbúar eru á hamfarasvæðinu, og njóta þeir aðstoðar sitthvorum megin við Skeiðarársand þar sem Vegagerðin hefur lokað veginum af öryggisaðstæðum.


Þetta kemur fram í stöðuskýrslu vegna eldgossins í Grímsvötnum. Vísindamenn flugu yfir gosstöðvarnar í morgun og hefur gosmökkurinn lækkað úr um 20 kílómetrum í gærkvöldi niður í 10-15 kílómetra í dag.

Mikið öskufall er frá eldstöðinni og liggur öskugeirinn yfir Suðurland, frá Vestmannaeyjum yfir í Öræfasveit og norður yfir Vatnajökul. Borist hafa upplýsingar um öskufall allt frá Vík í Mýrdal að Höfn í Hornafirði. Gert er ráð fyrir að öskufall verði mest til suðausturs en einnig í suður. Um er að ræða basaltgos með nokkuð fíngerðri ösku.

Sýni sem tekin voru á Kirkjubæjarklaustri í nótt þegar öskufall var um 9,4 g pr fermetra sýndi að askan inniheldur 5-10 mg/kg  af vatnsleysanlegum flúor á yfirborði   Sýrustig skolvatns (1g aska, 5g vatn) er veik-basískt - pH 8,6, sem bendir til að askan hafi sundrast í vatnsgufu eins og í upphafi annarra Grímsvatnagosa. Eins og í undanförnum Grímsvatnagosum er fyrsta askan hreint glerríkt berg með mjög lítið magn efna á yfirborði.

Gosórói minnkaði frá upphafi goss og á milli klukkan 9 og 11 í morgun var hann lægstur. Síðan jókst hann aðeins um hádegið og hefur verið stöðugur síðan.


Í fyrstu öskusýnum hefur ekki greinst mikið af efnum, þar með talin flúor, en askan er glerkennd og getur haft særandi áhrif á slímhimnur í öndunarfærum, meltingarfærum og augum skepna. Mikilvægt er að forða skepnum undan öskufalli og hýsa þær eða flytja annað ef mögulegt er. Tryggja þarf skepnum á útigangi hreint drykkjarvatn og gefa þeim gott fóður vel og oft.

Vegagerðin hefur lokað veginum frá Vík í Mýrdal og yfir Skeiðarársand af öryggisástæðum og verður vegurinn vaktaður af lögreglunni.

Loftrými yfir landinu er lokað og allt flug liggur niðri. Bannsvæði fyrir flug er í 20 sjómílna radíus um eldstöðina.

Tvær fjöldahjálparstöðvar eru nú opnar á hamfarasvæðinu, á Kirkjubæjarklaustri og Hofgarði í Öræfum. Rauði krossinn vinnur nú að því að skipuleggja áfallahjálp til íbúa á svæðinu ásamt heilbrigðisþjónustunni, kirkju, sveitarfélögum og almannavörnum.   Hjálparsími Rauða krossins 1717 var virkjaður í gærkvöldi sem upplýsingasími fyrir almenning eins og jafnan er gert í almannavarnaástandi.  Fólki er því bent á að hringja í Hjálparsímann 1717 til að nálgast almennar upplýsingar og til að sækja sér sálrænan stuðning.

Alls eru um 100 björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu við aðstoð á vettvangi við dreifingu á grímum og öryggisgleraugum og aðstoð við bændur.

Fólk sem þarf á aðstoð að halda frá lögreglu og björgunarsveitum hringi í Neyðarlínuna í síma 1-1-2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert