Víða þunnt öskulag

Bíl ekið á þjóðvegi eitt skammt frá Kirkjubæjarklaustri í morgun.
Bíl ekið á þjóðvegi eitt skammt frá Kirkjubæjarklaustri í morgun. Reuters

Gríðarmikið öskufall er frá eldgosinu í Grímsvötnum á svæðinu frá Mýrdalssandi og austur fyrir Freysnes í Öræfum. Hinsvegar hefur borið á ösku víðar á landinu og ljóst að hún dreifist mjög víða. Þannig hefur heyrst  af merkjum um öskufall í Reykjavík, í Borgarfirði og á Egilsstöðum. 

Víðast sjást merkin um öskufallið í þunnu ryklagi á bílum. Þannig kom t.a.m. íbúi á Egilsstöðum, sem ók til vinnu klukkan 7 í morgun, aftur að bílnum sínum þöktum þunnu lagi af ryki um ellefuleytið.  Í Skorradal mátti sömuleiðis sjá þunnt öskulag á framrúðu bíla í morgun og virðist einnig hafa borið á því í Reykjavík.

Að sögn Veðurstofunnar hefur vindáttin verið þannig nú upp á síðkastið að askan fellur hvað mest vestur fyrir Mýrdal en einnig ber á öskufalli norður fyrir gosstöðvarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert