105 ára með stálminni

Fjölmenni kom saman í Furugerði í Reykjavík í dag til að fagna með Guðríði Guðbrandsdóttur, en þar hélt hún upp á 105 ára afmælið sitt með pompi og prakt.

Guðríður, sem er þriðji elsti Íslendingurinn, fæddist á Spágilsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu, 23. maí 1906, sjötta af ellefu systkinum. Hún hefur búið í þjónustuíbúð fyrir aldraða í Furugerði 1 en þar hefur hún búið frá því byggingin var reist árið 1979.

Guðríður naut sín í hópi vina og vandamanna þegar mbl sjónvarp kom við í Furugerðinu í dag. Eins og í öllum góðum veislum voru haldnar ræður og sungið fyrir afmælisbarnið. Valdís Gregorí, barnabarnabarn Guðríðar, söng nokkur lög við píanóundirleik móður sinnar, Guðríðar Steinunnar Sigurðardóttur, sem á einnig afmæli í dag.

Hápunktur veislunnar var þegar Guðríður fór með með 84 erinda þulu eftir minni. Óhætt er að segja að hún sé stálminnug og var klappað vel og lengi fyrir afmælisbarninu þegar þulunni lauk.

„Ég hugsa eiginlega aldrei um aldurinn satt að segja,“ segir Guðríður. Hún reyni bara að njóta lífsins með vinum og vandamönnum.

„Mér finnst fólkið taka mér eins og jafningja. Ég finn aldrei fyrir því að ég sé þetta mikið eldri,“ segir hún og bætir við að sér líði alveg ljómandi vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert