Álit dýralækna verði gerð opinber

Álver Norðuráls á Grundartanga.
Álver Norðuráls á Grundartanga. mbl.is/Árni Sæberg

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, hrossabóndi á bænum Kúludalsá, telur eðlilegt að álit dýralækna, sem Norðurál hafi fengið varðandi veikindi hrossa á bænum, séu gerð opinber, einkum vegna þess að enginn dýralæknir hafi lokið rannsókn á hrossunum svo Ragnheiði sé kunnugt um.

Hún segir í tilkynningu að mikilvægt sé að umræða um flúor í búfé byggi á staðreyndum. Þolmörk flúors í hrossum séu lítið þekkt hérlendis, enda hafi þolmörk hvorki verið skilgreind né verið rannsökuð með tilliti til þeirra nota sem höfð séu af hestum nú til dags, s.s. með tilliti til hreyfigetu, styrkleika beina og taugakerfis.

Ragnheiður vísar til tilkynningar sem Norðurál sendi frá sér og fjallað var um á mbl.is sl. laugardag. Þar segir m.a.: „Norðurál hefur fengið álit dýralækna á veikindum hrossa á Kúludalsá og komust þeir að sömu niðurstöðu og Umhverfisstofnun hefur nú komist að, að ekki væru tengsl á milli veikinda hrossanna og styrks flúors í umhverfinu.“

Ragnheiður bendir á, í ljósi fullyrðinga Norðuráls, að enginn fulltrúi frá Matvælastofnun hafi komið að skoða hrossin. Umhverfisstofnun sem hafi haft erindi undirritaðrar undir höndum í tvö ár,  byggi svar sitt frá 19. maí s.l. á áliti Matvælastofnunar.

Í áliti Sigríðar Björnsdóttur, dýralæknis hrossasjúkdóma á MAST, segi m.a.: „þolmörk [flúors] fyrir hross eru af sumum talin vera svipuð og fyrir nautgripi en aðrir telja þau vera mun lægri.“ Ragnheiður segir að samkvæmt framansögðu og fleiru sem komi fram í máli Sigríðar skorti tilfinnanlega fræðilegan grunn varðandi áhrif fúormengunar á hross.

„Furðu sætir að dýralæknir hrossasjúkdóma skuli draga afgerandi ályktun þar sem vísindalegan grunn skortir og láta sig sjúkdómsgreiningu hrossanna og velferð engu varða,“ segir Ragnheiður.

Fráleitt að Norðurál beri ábyrgð á rannsókninni

Þá segir Norðurál í tilkynningunni að Ragnheiður hafi hafnað boði fyrirtækisins, í samvinnu við Umhverfisstofnun, að standa að ítarlegri rannsókn á veikindum hrossanna í apríl 2009. 

Ragnheiður segir að hafa skuli það sem sannara reynist. Eftir að hún hafi sent Norðuráli tilkynningu um veikindi hrossanna vorið 2009 hafi fyrirtækið beðið Ragnheiði um að senda Norðuráli öll gögn sem til væru um umrædd veikindi þannig að sérfræðingar Norðuráls gætu farið yfir þau s.s. varðandi beit, áburðargjöf, fóðurgjöf og annað sem áhrif gæti haft í umræddu máli.

„Að sjálfsögðu sóttist undirrituð eftir ítarlegri rannsókn á hrossunum, en þótti fráleitt að sá sem mengaði umhverfi þeirra, þ.e. Norðurál, bæri ábyrgð á rannsókninni. Gerði undirrituð Norðurálsmönnum grein fyrir því að einungis til þess bær opinber rannsóknaraðili myndi fá gögn um hrossin á Kúludalsá og aðbúnað þeirra. Ekki hefur verið hlutast til um slíka rannsókn, hvorki af hálfu álversins né opinberra aðila og Umhverfisstofnun hefur nú synjað beiðni um rannsóknina sem sóttst var eftir. Vafi leikur á að stofnunin hafi fylgt reglum stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins og eru þau atriði nú til sérstakrar skoðunar,“ segir Ragnheiður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert