Flugi aflýst til Bretlands

mbl.is/ÞÖK

Icelandair hefur aflýst flugferðum til Bretlandseyja á morgun vegna öskuskýs frá Grímsvatnagosinu, sem verður væntanlega yfir Bretlandi á morgun.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að morgunfluginu til Lundúna og Manchester/Glasgow verði aflýst. Hins vegar verði síðdegisferðin til London farin á morgun.

Mikið annríki hefur verið á Keflavíkuflugvelli eftir að flugbanni var aflétt. Fyrstu vélarnar fóru í loftið um kl. 18 og um klukkustund síðar komu fyrstu vélarnar inn til lendingar.

„Þetta gengur ljómandi vel en það eru tafir í þessu. Þannig að við hvetjum fólk áfram til að fylgjast með brottfarar- og komutímum vélanna,“ segir Guðjón.

„Það er verið að fljúga áfram í kvöld og í nótt.“ 

Í fyrramálið sé von á vélum frá Bandaríkjunum en Guðjón bendir á að þær séu í töluverðri seinkun. Það muni svo leiða til þess að það verði seinkun á Evrópufluginu.

„Þetta er ekki komið í eðlilegar skorður ennþá.“

Aðspurður segir Guðjón að það megi gera ráð fyrir því að vélarnar sem komi frá Bandaríkjunum í nótt þurfi að millilenda, því flugleiðirnar séu lengri en alla jafna.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is mun vél sem lagði af stað til New York í kvöld millilenda í Gander á Nýfundnalandi þar sem vélin þarf að taka á sig krók vegna öskunnar frá Grímsvötnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert