Gosmökkurinn í 5-7 km hæð

Eldgosið í Grímsvötnum sést greinilega á þessari gervitunglamynd NASA, sem …
Eldgosið í Grímsvötnum sést greinilega á þessari gervitunglamynd NASA, sem var tekin í gær. Reuters

Eldvirkni í Grímsvötnum hefur verið stöðug og gosmökkurinn hefur verið í 5-7 km hæð. Engar eldingar hafa verið skráðar síðan kl. 4:30 í morgun.

Fram kemur í stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, að mikið öskufall hafi verið skráð á láglendi sunnan og suðvestan af Vatnajökli. Búast megi við talsverðu öskufalli allvíða suðaustanlands.

Fréttir hafa borist af öskufalli allt frá höfuðborgarsvæðinu að Tröllaskaga á norðaustanverðu landinu. Aska í lofti í Reykjavík er sjáanleg en er greinilega að þynnast. 

Matthew James Roberts, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði á blaðamannafundi í samhæfingarmiðstöð Almannavarna nú síðdegis að skjálftavirkni sé mest í miðjum Grímsvötnum. Hins vegar hafi mælst jarðskjálftar víðar í Vatnajökli. Skjálftum hafi hins vegar fækkað verulega, sem bendi til þess að gossprungan sé nægilega opin, þ.e. að ekki sé það mikill þrýstingur á yfirborðinu að hún opnist frekar.

Þegar mest var spúði eldstöðin 10.000 tonnum af gosefnum á hverri sekúndu. Nú koma upp um 2.000 tonn af efnum á sekúndu, sem er mun meira magn en var í Eyjafjallajökli.

Vegna slæms skyggnis hafa vísindamenn ekki verið farið í neitt eftirlitsflug í dag.

Fram kom að GPS-stöð á Grímsfjalli hefði færst um 40 metra til norðurs, auk þess sem hún hafi lækkað um 20 cm.

Fjallið gýs enn af krafti sem þýði væntanlega að hraunið komi úr miklu dýpi. Það getur þýtt að gosið muni standa lengi yfir að sögn Roberts. 

Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri hjá Veðurstofunni, sagði gosmökkurinn hefði náð 5-7 km hæð kl. 13:30 í dag. Þá hefði útslagið mælst minna sem þýddi að meiri stöðugleiki hafi náðst í eldstöðinni.

Þegar mökkurinn var hvað hæstur í gær þá teygði hann sig upp fyrir veðrakerfið. Sigrún segir að það geti tekið marga daga fyrir gosefnið að skila sér aftur niður. Menn geti ekki sagt með vissu hvar það það muni falla.

Hjálmar Björgvinsson, stjórnandi í samhæfingarmiðstöðinni, segir að menn hafi íhugað það alvarlega hvort það hafi verið forsendur fyrir því að opna þjóðveginn á milli Víkur og Freysness. Hins vegar hafi aðstæður verið það slæmar, öskufall og mikið rok, að það hafi ekki komið til greina.

Vegurinn verði í fyrsta lagi opnaður aftur á morgun.

Þá kom fram að engan hafi sakað og að enginn hafi farið inn á hættusvæðið að óþörfu. 

Matthew James Roberts, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, fór yfir stöðu …
Matthew James Roberts, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, fór yfir stöðu mála með fréttamönnum í samhæfingarmiðstöðinni. mbl.is/Árni Sæberg
Smalamenn í Landbroti sáu varla handa sinna skil í dag.
Smalamenn í Landbroti sáu varla handa sinna skil í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert