Mikið öskumistur er í Vestmannaeyjum. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir sést varla milli húsa í bænum og Heimaklettur, sem ætti að blasa við í baksýn, er horfinn í öskukófið.
Skólahald í Grunnskóla Vestmannaeyja féll niður í dag. Þá hvetur almannavarnarnefnd Vestmannaeyja fólk með öndunarfærasjúkdóma til að vera ekki á ferli í Eyjum. Einnig er eigendum búfjár bent á að huga að dýrum sínum. Segir í tilkynningu frá nefndinni, að þar sem spáð sé áframhaldandi norð- og norðaustanlægum áttum næstu tvo daga séu líkur á áframhaldandi öskufalli í Vestmannaeyjum frá eldsumbrotunum í Grímsvötnum.
Fram kemur á vef Eyjafrétta, að nær stanslaus umferð fólks hafi verið um lögreglustöðina í Eyjum í morgun þangað em íbúar sæki sér grímur og gleraugu til að verjast fíngerðri öskunni.