Svalbarðaflug gæti stöðvast

Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær.
Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær. mbl.is/RAX

Norsk flugmálayfirvöld segja, að gera megi ráð fyrir því að öskuský frá Grímsvötnum hafi áhrif á flug til og frá Svalbarða þegar líður á daginn og hugsanlega muni það stöðvast alveg í kvöld.

Stofnunin Avinor segir, að öskuskýið muni síðdegis koma inn í norskt loftrými milli Svalbarða og norska meginlandsins. Miðað við spár gæti flug til og frá Svalbarða stöðvast.  Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að truflanir verði á öðru flugi til og frá Noregi nema frá Íslandi þar sem flugvellir eru lokaðir. 

Dönsk flugmálayfirvöld segja, að ekki sé búist við truflunum á flugumferð þar í dag, að öðru leyti en því að flugtími til Bandaríkjanna lengist vegna þess að flugvélar þurfi að fara sunnar en venjulega til að sneiða hjá öskuskýinu frá Grímsvötnum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert