Nú er orðið ljóst að loftrýmið yfir Keflavík og Reykjavik lokar að nýju um kl. 23 í kvöld til kl. 8 í fyrramálið vegna ösku frá Grímsvatnagosinu. Flugvöllurinn á Egilsstöðum lokar einnig, auk þess sem Akureyrarflugvöllur verður áfram lokaður.
Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur upplýsingafulltrúa Isavia er miðað við að loftrýmið opni að nýju um klukkan 8 í fyrramálið að óbreyttu. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafultrúa Icelandair mun lokunin hafa lágmarksáhrif á flugáætlunina.
Flugi sem átti að koma frá London um miðnætti kvöld verður seinkað fram í fyrramálið og verða farþegar fluttir á hótel í London þar sem þeir sofa í nótt. Einhverjar tafir verða á flugvélum sem eru væntanlegar til landsins frá Bandaríkjunum snemma í fyrramálið og mun það valda seinkun á brottförum í kjölfarið en Guðjón áætlar að áhrifin verði lítil.
Farþegar eru kvattir til að fylgjast með komu- og brottfarartímum á textavarpinu eða heimasíðu Keflavíkurflugvallar.