Norræna lagðist að bryggju nú síðdegis, eftir að hafa orðið að lóna út með firðinum síðan í morgun vegna veðurs. Um borð voru um 570 farþegar. Jónas Hallgrímsson, talsmaður Austfars, segir alla hafa komið brosandi í land, eftir að hafa fengið útsýnisferð út með firðinum.
Útlit var fyrir að ferðamenn með skipinu kæmust ekki yfir Fjarðarheiði vegna ófærðar en að sögn Jónasar var hún mokuð ,,niður í malbik" í dag og ætti að vera ágætlega færa öllum bílum. Eru nú hálkublettir þar, samkvæmt vef Vegagerðarinnar.
,,Þetta er búið að vera þrúgandi ástand, maður man ekki eftir öðru eins á þessum árstíma," sagði Jónas, sem hafði meiri áhyggjur af færðinni á Fagradal og Möðrudalsöræfum en á Fjarðarheiði þar sem þar hefði kyngt niður meiri snjó síðustu daga.
Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er nú hálka og skafrenningur á Fagradal og Möðrudalsöræfum. Þjóðvegurinn suður fyrir land er lokaður vegna eldgossins í Grímsvötnum þannig að ferðamenn með Norrænu verða að fara norður fyrir land, ætli þeir ekki að byrja Íslandsferð sína á Austfjörðum.