Útlit er fyrir að gjóskuframleiðsla í eldstöðinni í Grímsvötnum sé nú mun minni en undanfarna daga. Hins vegar hefur gríðarlegt magn af ösku fallið á landið og er ennþá í háloftunum.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur eftir vísindamönnum, að gosmökkurinn hafi verið mun lægri í nótt en hann var í gær og nái nú 3-5 km. hæð.
Áætlað er að flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SiF, fari í flug síðar í dag. Er unnið að því að gera hana klára en varahlutur, sem beðið var eftir, kom til landsins í gærkvöldi. Stendur til að kortleggja eldstöðvarnar með radar- og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar.
Frá því að gosið hófst hefur Landhelgisgæslan útvegað radargögn frá ratsjárstöðinni á Stokksnesi sem nýst hafa vel við útreikninga á hæð gosstróksins og önnur umbrot sem eiga sér stað á svæðinu.
Samráðshópur um áfallahjálp hefur verið með hópa í fjöldahjálparstöðvum á Klaustri, í Vík, Höfn og Hvolsvelli. Nokkrir íbúar hafa ákveðið að fara tímabundið í burtu.
Þrír læknar eru nú á Klaustri og er kirkjan er að skipuleggja aðstoð og stuðning við presta á svæðinu. Bent er á hjálparsíma Rauða krossins 1717 sem er upplýsingasími fyrir almenning til að til að nálgast almennar upplýsingar og sækja sér sálrænan stuðning.