Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í sjö mánaða fangelsi, fimm bundna skilorði, fyrir fjárdrátt í starfi hjá einkahlutafélagi. Honum var einnig gert að greiða fjárhæðina til baka, rúmar átta milljónir króna.
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra hann hann stjórnaði starfsemi bílasölu á Akureyri. Á árunum 2009 og 2010 dró hann sér úr sjóðum félagsins rúmar átta milljónir króna, þ.e. 5,5 milljónir króna árið 2009 og 2,6 milljón króna á síðasta ári. Maðurinn lét af störfum hjá fyrirtækinu í ágúst sl.
Fyrir dómi játaði maðurinn sök en hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé.
Við ákvörðun refsingar var litið til játningar mannsins
og einnig að hann hafi samþykkt einkaréttarkröfu. Því þótti fært að fresta fullnustu fimm mánaða af sjö mánaða fangelsisdómi.