Flugvellirnir á línunni

Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli í gær.
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli í gær. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort loka þurfi Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli í kvöld eður ei vegna ösku. Hingað til hefur allt innanlands- og millilandaflug gengið að mestu með eðlilegum hætti. Hins vegar verður Ísafjarðarflugvöllur áfram lokaður þar sem aska mælist nú í loftrýminu yfir Vestfjörðum.

Unnið er að því að meta stöðuna og vonir standa til að nýjar upplýsingar liggi fyrir um kl. 18.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að þá geti menn vonandi sagt til um það hvort hægt verði að fljúga áfram eða hvort aflýsa verði ferðum.

Aðspurð segir hún að nú sé verið að fylgjast með gamalli ösku, sem eldstöðin undir Grímsvötnum spúði í byrjun í gossins, og áhrifum hennar á flugumferð. Hjördís segir að öskuskýið sé að snúa aftur frá Grænlandi og muni líklega fara yfir Ísland í kvöld.

Miðað við nýjustu öskudreifingarspána sé Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöllur á línunni, þ.e. sem ræður því hvort loka verði völllunum eða ekki. „Við erum að vona að við lendum réttu megin,“ segir Hjördís. 

Hún bendir ennfremur á að nýrri aska muni ekki hafa þessi áhrif á flugumferð.

„Öll askan sem kemur úr eldgosinu frá og með deginum í dag, hún mun mjög ólíklega hafa áhrif á flugumferð. Gosið er orðið minna sem þýðir að þessi aska sem við erum að eiga við núna er gömul. Hún er búin að fara til Grænlands og kemur nú til baka.“

Því sé ekki hægt að útiloka að gamla askan geti ollið truflunum á flugumferð til og frá landinu. Enn sé unnið að því að meta stöðuna í samráði við flugrekstraraðila. Eftir kl. 18 liggi vonandi fyrir nýjar upplýsingar varðandi flugumferð í kvöld, í nótt og í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert