„Gosið fer dagminnkandi“

Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær.
Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær. mbl.is/RAX

„Gosið fer dagminnkandi og við eigum ekki von á að það komi aftur neitt í líkingu við það sem hefur verið síðustu daga,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur um eldgosið í Grímsvötnum.

„Það gýs ennþá og gosmökkurinn nær 3-6 km hæð þrátt fyrir norðanátt,“ sagði Magnús Tumi. Hann sagði að gosið hefði fram að þessu hegðað  sér í takt við önnur Grímsvatnagos. Þau væru öflugust fyrst en síðan dragi úr þeim. Hann sagðist ekki búast við að það kæmi einhver kippur í gosið. „Ég hef ekki trú á því. Ég held að það mesta sé búið í þessu gosi.“

Aðspurður um líkur á hraungosi sagði Magnús Tumi að hraungos yrði ekki nema það dragist á langinn, en áður þyrfti að draga meira úr gosinu.

Jarðvísindamenn stefna að því að fljúga upp að gosstöðvunum síðar í dag. Flugvél Landhelgisgæslunnar hefur ekki verið flughæf vegna bilunar í nefhjóli, en viðgerð á henni er að ljúka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert