Gosórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli hefur verið nokkuð stöðugur frá miðjum degi í gær en inn á milli hafa komið sterkari hviður, segir í nýrri stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni sjálfri. Breytingar á hæð gosmakkar, öskufalli í byggð, fjölda eldinga, skjálftaóróa og jarðskorpuhreyfingar benda til þess að áfram dragi úr eldgosinu og sprengivirkni er nú sögð aðeins lítið brot af því sem var í upphafi.
Samkvæmt stöðuskýrslu ríkislögreglustjóra heldur gosmökkurinn frá Grímsvötnum áfram að lækka, er nú í 2-3 km hæð en skýst stöku sinnum upp fyrir það. Þetta er sögð mikil lækkun frá því er mest var og lækkun frá því í nótt þegar mökkurinn var í 3-5 km hæð. Nær mökkurinn ekki upp í háloftavinda.
Öskuframleiðsla er sögð mun minni en verið hefur og hennar gætir nær eingöngu í nágrenni eldstöðvarinnar.. Samkvæmt viðtölum við veðurathugunarfólk liggur dökkur og vel afmarkaður öskumökkur milli Lómagnúps og Mýrdalsjökuls að Hjörleifshöfða. Mökkurinn er ekki mjög þykkur og er fjúkandi aska í bland, segir í stöðuskýrslunni frá í kvöld.
Á Kirkjubæjarklaustri hafði öskufall minnkað frá því sem hafði verið daginn áður. Skyggnið í morgun náði 200 m og mögulegt að vera úti án hlífðargleraugna. Hins vegar dimmdi aftur yfir undir hádegið og skyggni minnkaði í um 100 metra.
Sú aska sem kom upp á fyrstu 36 tímum gossins var meiri en sú aska sem kom upp í Eyjafjallajökulsgosinu í fyrra. Búist er við að þetta öskumagn muni valda áfram truflunum á flugi næstu daga.