Ísafjarðarflugvöllur áfram lokaður

Flugvöllurinn á Ísafirði.
Flugvöllurinn á Ísafirði. mynd/bb.is

Ísafjarðarflugvöllur verður áfram lokaður þar sem aska mælist nú í loftrýminu yfir Vestfjörðum.

Samkvæmt nýrri öskuspá sem gefin var út í hádeginu í dag, hefur askan sem verið hefur yfir Grænlandi, færst nær landinu og gæti því loftrýminu yfir Norðurlandi einnig verið lokað síðar í dag.

Margir hafa furðað sig á lokuninni þar sem heiðskýrt er á Ísafirði og hvergi öskuský að sjá. Samkvæmt upplýsingum blaðsins er askan ekki alltaf sjáanleg í háloftunum því bæði er hún fíngerð og getur legið eins og glerhella hátt í lofthjúpnum. „Það er eðlilegt að fólk velti þessu fyrir sér. Það var einnig heiðskýrt í Reykjavík þegar flugvellinum var lokað á laugardaginn. Miðað við þær forsendur sem notaðar eru til útreikningar á dreifingunni þá er aska yfir ykkur á Vestfjörðum,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi Isavia. 

„Askan sem nú er yfir Vestfjörðum er gömul og hefur verið á ferðalagi yfir Grænlandi síðustu daga. Ólíklegt er að askan sem nú kemur úr gosinu muni trufla flugumferð þannig nú er að bíða eftir að þessi aska þynnist út eða falli til jarðar,“ segir Hjördís sem vill þó ekki fullyrða hvenær það verði. „Vonandi verður það sem fyrst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert