„Þetta virðist vera ákaflega líkt og í Kötlugosinu 1918, nema þá var meira öskufall og þetta stórkostlega vatnsflóð,“ segir Vilhjálmur Eyjólfsson, fyrrverandi bóndi á Hnausum í Meðallandi. Hann þekkir vel sögu sveitarinnar sem er mörkuð af afleiðingum eldgosa.
Hann segir að Grímsvötn séu mun lengra frá byggð en Katla. Þess vegna séu afleiðingarnar fyrir byggðina minni en af Kötlugosi. „Þá var myrkur um miðjan dag, eins og nú, vegna öskufalls og eldinga í mekkinum.“
„Ég er með vatnsryksugu sem hreinsar loftið á augabragði. Ég hafði hana ekki í fyrra þegar hér lá öskumistur lengi yfir,“ segir Vilhjálmur.
Hann hefur meiri áhyggjur af bændum sem þurfi að fara út til að sinna skepnum. „Sunnlendingar eru ekki við því búnir að þurfa að hýsa allt, eins og Norðlendingar sem þurfa að eiga hús fyrir allt féð vegna vorhreta.“
„Þetta er brúngrátt, segja þeir sem sjá almennilega,“ segir Vilhjálmur um öskuna sem liggur um allt landið. Hann óttast að gosið vari eitthvað lengur með tilheyrandi öskufalli. „Þetta er svo stórt í sniðum, undir er stór kvikustrókur.
Ég man vel eftir Grímsvatnagosinu 1934, það stóð nokkuð lengi og gosmökkurinn var voldugur. Einn dag sást vottur af öskufalli, annars hef ég ekki heyrt af öskugosi í Grímsvötnum frá því á nítjándu öld.“