„Tilfinning manna er sú að það sé enn ekki farið að bera mikið á afbókunum. Hins vegar eru farnar að berast margar fyrirspurnir. Það virðist sem menn séu rólegri og er ástæðan ef til vill sú að þetta hafi ekki haft áhrif á flug í þeirra heimalandi. Líklega upplifa menn þetta ekki jafn sterkt og í fyrra, þegar allir flugvellir, nær og fjær, lokuðust,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, spurð um áhrif eldgossins í Grímsvötnum á bókanir erlendra ferðamanna.
„Ef öskufallið dregst mikið á langinn er auðvitað hætta á því að fólk fari að kippa að sér höndum og afbóka. Ég hef heimildir fyrir því að ein stór ráðstefna geti verið í uppnámi til viðbótar við þær tvær sem þegar hefur verið aflýst,“ segir Ólöf Ýrr sem hafði ekki upplýsingar um þriðju ráðstefnuna við höndina seint í gærkvöldi.
Er þar annars vegar um að ræða alþjóðlega ráðstefnu KVENN, félags kvenna í nýsköpun, en hún átti að hefjast í Hörpu á morgun og standa í tvo daga. 58 konur frá 10 löndum höfðu verið tilnefndar til verðlauna Evrópusamtaka kvenna í nýsköpun, EUWIN, og voru skráðir þátttakendur í ráðstefnunni hátt í 200 og von á um 100 erlendum gestum.
Þá aflýsti íslenska hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail alþjóðlegri ráðstefnu sinni sem einnig átti að hefjast í Hörpu á morgun. Skráðir þátttakendur í ráðstefnunni voru hátt í 200 og var von á ríflega 130 erlendum gestum til landsins.