Meira þrúgandi þegar lygnir

Félagar í björgunarsveitinni Ársæli huga að rennum húsa á Klaustri.
Félagar í björgunarsveitinni Ársæli huga að rennum húsa á Klaustri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur lygnt aðeins og þá verður þetta meira þrúgandi,“ segir Baldur Ólafsson, hjá vettvangsstjórn björgunarsveita á Kirkjubæjarklaustri, þegar hann er spurður um öskufallið á Klaustri.

Um 60 björgunarsveitarmenn eru að störfum á Klaustri og í nágrenni. Baldur sagði að þeir væru að aðstoða bændur á svæðinu við að sinna skepnum og koma þeim í skjól. Hann sagði að þessi vinna hefði gengið vel í dag. Hann sagðist bíða eftir skýrslu frá björgunarsveitarmönnum sem hefðu verið úti síðan í morgun og sagðist því ekki vera með staðfestar fréttir af því að sauðfé hefði verið að drepast.

Þrátt fyrir að mikið öskufall hefði verið á Klaustri er ekki þykkt öskulag í bænum því nær öll aska hefur fokið í burtu. Hvasst var í bænum framan af degi en nú hefur lygnt.

Björgunarsveitarmenn hafa einnig verið að huga að rennum húsa á Klaustri og reyna að koma í veg fyrir að niðurföll stíflist.

Björgunarsveitarmenn fá sér kjötsúpu á Klaustri.
Björgunarsveitarmenn fá sér kjötsúpu á Klaustri. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert