Komu Norrænu til Seyðisfjarðar hefur seinkað vegna veðurs. Ferjan átti að leggjast við bryggju kl. 9 í morgun en vegna óveðurs hefur hún orðið að bíða átekta í firðinum. Þá er Fjarðarheiði ófær samkvæmt upplýsingum lögreglu. Á sjötta hundrað farþega eru um borð í Norrænu.
Að sögn lögreglu gerði ferjan tilraun til að koma upp að höfninni um kl. 10:30 í morgun en hún sneri á endanum frá.
Jónas Hallgrímsson, talsmaður Austfars ehf., segir í samtali við mbl.is að aðstæður séu slæmar vegna veðurs og því muni ferjan bíða enn um sinn í firðinum. Stefnt sé að því að ferjan muni reyna leggjast við bryggju nú síðdegis, vonandi fyrir 17:30 lagist veðrið.
Jónas bendir á að allir vegir séu jafnframt lokaðir og því ljóst að ferðamennirnir muni ekki komast leiðar sinnar komist þeir í land nú síðdegis. „Það er ekki hægt að fara neitt í vitlausu veðri, það er bara svo einfalt mál. Og þetta verður ekkert gengið niður fyrr en í kvöld,“ segir Jónas. Ekkert ferðaveður verði fyrr en á morgun.
Aðspurður segir Jónas að það væsi ekki um ferðamennina um borð í Norrænu. „Það er 1.461 rúm í skipinu og það er ekkert sem segir að þetta geti ekki gengið allt saman vel.“