Verulega hefur dregið úr skjálftavirkni í Vatnajökli eftir gríðarlega hrinu skjálfta á laugardagskvöld og aðfaranótt sunnudags. Miðja virkninnar hefur verið í og við Grímsvötn, en einnig hafa skjálftar mælst annars staðar í nágrenninu.
Til marks um hina miklu krafta sem losnað hafa úr læðingi undanfarna daga hefur GPS-mælingarstöð Veðurstofu Íslands á Grímsfjalli hnikast um 50 sentimetra í norður, og lækkað um 25 sentimetra, að sögn Matthew Roberts, eldfjalla- og jarðskjálftasérfræðings hjá Veðurstofunni.
Undir kvöld í gær höfðu einungis orðið þrír skjálftar frá miðnætti á sunnudagskvöld, og sá langsterkasti um 2,1 stig. Til samanburður urðu 21 skjálfti á sólarhringnum fram að því. Minni skjálftavirkni bendir til þess að kvikan eigi greiða leið upp um sprunguna og þrýstingur á hana því lítill. Á hinn bóginn segir Roberts að hinn mikli kraftur gossins, sem er að líkindum hið sterkasta í meira en öld, sé vísbending um það að kvika komi upp af miklu dýpi. Þetta geti aftur þýtt að gosi eigi eftir að standa yfir í einhvern tíma, nokkra daga hið minnsta, þótt erfitt sé að fullyrða um tímalengdina að svo stöddu.
Þegar hraun hefur hlaðist upp, upp fyrir vatnsborð í Grímsvötnum, breytist gosið í hraungos og öskumyndun, og þar af leiðandi öskufalli, linnir.
Hæð gosmökksins mældist á bilinu 5-9 kílómetrar í gær, sem er töluvert lægra en þegar hann fór hæst í upphafi goss. Þá hefur dregið úr magni gosefna sem eldstöðin spýr. Þegar mest var komu 10.000 rúmmetrar af gosefnum upp á sekúndu, en síðdegis í gær var það magn komið niður í um 2.000 rúmmetra á sekúndu.