Fyrirtæki eru hvött til að taka þátt í því að safna fé í séstakan sjóð sem ætlað er að veita bændum og fyrirtækjum í námunda við gosstöðvarnar í Grímsvötnum fjárhagslegan stuðning.
Fram kemur í tilkynningu að söfnunin fari fram í samráði við Samtök atvinnulífsins. Búið sé að velja fjögurra manna verkefnisstjórn til að hafa umsjón með söfnuninni og skipuleggja hana.
Fram kemur að óskað sé eftir fjárframlögum frá hverju fyrirtæki sem nemi frá kr. 100.000 til 1.000.000 kr. Nú þegar hafi fjölmörg fyrirtæki lagt fé í söfnunina.
Í verkefnisstjórninni eiga sæti: Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðaráðherra og framkvæmdastjóri SAM, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssambands sauðfjárbænda , Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, og Hugrún Hannesdóttir, frá Félagi Ferðaþjónustubænda.
„Sem betur fer eru stofnanir og sjóðir í landinu sem bæta hluta þess skaða, sem gosið veldur, en lærdómur okkar af síðustu sambærilegum atburðum er sá, að margt er það sem út af stendur og verður ekki bætt með þeim hætti. Verða bændur því að óbreyttu að bera verulegan hluta af tjóninu sjálfir og er þar um svo stórar fjárhæðir að ræða fyrir einstaklingana, að slíkt myndi gera þeim ókleyft að halda áfram rekstri með sama sniði,“ segir í tilkynningunni.