Slasaðist alvarlega í vinnuslysi

mbl.is/Jakob

Starfsmaður BM Vallá slasaðist alvarlega þegar hann var að vinna við rennibekk síðdegis í gær. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins festist hægri hönd mannsins í bekknum.

Maðurinn sem er um sextugt var fluttur á slysadeild og gekkst hann undir aðgerð á Landspítalanum í gær.

Að sögn SHS eru áverkar mannsins alvarlegir. Honum er nú haldið sofandi öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans, skv. upplýsingum frá vakthafandi lækni.

Tilkynning um slysið barst kl. 16:30 í gær og var lögregla og Vinnueftirlitið kallað á staðinn.

Að sögn lögreglu varð slysið með þeim hætti að maðurinn festist í rennibekknum þegar hann var að aðstoða annan starfsmann sem var að slípa járnstöng í vélinni.

Vinnueftirlitið fer með rannsókn málsins en það getur ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert