Tvísýnt með flug eftir klukkan 20

Mikið var að gera í Leifsstöð í gærkvöldi þegar Keflavíkurflugvöllur …
Mikið var að gera í Leifsstöð í gærkvöldi þegar Keflavíkurflugvöllur var opnaður á ný. mbl.is/Hilmar Bragi

Keflavíkurflugvöllur verður opin til kl.20 í kvöld hið minnsta. Fylgst er grannt með gamalli ösku sem er á leið að landinu frá Grænlandi og er því framhaldið í kvöld nokkuð tvísýnt.

Innanlands- og millilandaflug hefur gengið að mestu vel í dag og mun ganga samkvæmt áætlun til kl. 20 hið minnsta að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur upplýsingafulltrúa Isavia. „Við vinnum þetta núna skref fyrir skref með Veðurstofunni og byggt á þessum mælingum sem við erum að gera núna við flugvöllinn. Svo verður tekin ákvörðun seinna í kvöld með framhaldið."

Hjördís bendir á að bæði Reykjavíkurflugvöllur og flugvöllurinn á Egilsstöðum séu opnir og ætti því í öllu falli ekki að verða vandræði með lendingar í kvöld. Tvær flugvélar eru væntanlegar samkvæmt áæltun til Keflavíkur eftir kl. 20 í kvöld, ein vél frá Kaupmannahöfn kl. 20:55 og önnur frá Heathrow flugvelli í London kl. 00:10.

Nýjasta öskudreifingarspá bresku veðurstofunnar sýnir að askan frá Grímsvötnum teygir sig til morguns nær meginlandi Evrópu að hluta, sem og austur til Rússlands, og yfir til Grænlands.

Nýjustu öskudreifingarspár bresku veðurstofunnar.
Nýjustu öskudreifingarspár bresku veðurstofunnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert