Aska skreið með jöklinum

Gígurinn í Grímsvötnum í gærkvöldi.
Gígurinn í Grímsvötnum í gærkvöldi. mbl.is/Björn Oddsson

Þegar jarðvísindamenn flugu upp að Grímsvötnum í gærkvöldi var mökkurinn ekki samfelldur. Þetta segir Björn Oddsson jarðfræðingur sem fylgdist með gosinu í gærkvöldi. Hann segir að aska hafi fallið á jökulinn og skriðið með honum niður á Suðurlandsundirlendið.

„Þegar við komum að gosinu reis bara hvítur mökkur frá Grímsvötnum. Þann stutta tíma sem við vorum þarna sáum við nokkrar gjóskusprengingar. Mökkurinn gildnaði alveg fjórfalt miðað við það sem hann var þegar hann var minnstur. Þegar hann reis upp dökknaði hann en gjóskan barst ekki upp í andrúmsloftið heldur fellur hún niður á jökulinn og skríður með jöklinum niður á Suðurlandsundirlendið. Í gærkvöldi og nótt var því að bætast í magnið sem getur fokið með jöklinum,“ sagði Björn sem mun skoða eldgosið aftur í dag ásamt fleiri vísindamönnum.

Björn sagði talsvert vatn í Grímsvötnum, en telur það þó ekki vera það mikið að hætta sé á mjög stóru jökulhlaupi. „Gosið kom upp á þannig stað að það er ekki mikill ís þarna fyrir, sem skýrir líka hversu hratt þetta reis upp.“

Björn sagði að í gærkvöldi hefðu verið tveir litlir gjóskugígar sem kíkt hefðu yfir vatnsyfirborðið. Hann sagði ljóst af öllum ummerkjum að mikið hefði gegnið á í Grímsvötnum þegar gosið hófst. Gossprungan hefði þó aldrei náð út fyrir sigketilinn í Grímsvötnum. Eldgosið hefði komið upp á mjög svipuðum stað og gosið 2004. Hann sagði að fram að þessu hefði gosið hagað sér í takt við hefðbundin Grímsvatnagos.

„Þetta byrjar mjög kröftuglega, en síðan dregur jafnt og þétt úr þessu. Öskuframleiðslan var hins vegar gríðarleg fyrsta sólarhringinn og það er það sem er óvenjulegt við þetta gos.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka