Dómari lagði fram ljósmynd

Lögregla ræðir við Lárus Pál Birgisson framan við sendiráðið í …
Lögregla ræðir við Lárus Pál Birgisson framan við sendiráðið í júlí 2010. mbl.is/Jakob Fannar

Hæstiréttur hefur staðfest þá niðurstöðu Arngríms Ísberg, héraðsdómara, að víkja ekki sæti í máli manns, sem ákærður var fyrir að neita að hlýða fyrirmælum lögreglu.

Maðurinn, Lárus Páll Birgisson, hefur ítrekað verið handtekinn fyrir að mótmæla framan við bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Ákæran, sem nú er til meðferðar, er vegna afskipta lögregu af Lárusi 4. nóvember í fyrra.

Lárus lýsti því yfir að hann ætlaði að verja sig sjálfur og krafðist þess m.a. að málinu yrði vísað frá. Þegar málflutningur um frávísunarkröfuna átti að fara fram krafðist Lárus þess að dómarinn viki sæti, m.a. á þeirri forsendu, að hann hefði ítrekað sagt honum að hann mætti ekki tala um neitt annað en það sem fram komi í ákærunni. 

„Þetta er rétt," segir í úrskurði Arngríms um hæfi sitt. „Við þingfestingu var ákærði mjög málglaður og fór víða í tali sínu.  Fannst dómaranum hann lítt vilja fjalla um ákæruna og benti honum á að fjalla um það sem hann væri ákærður fyrir, enda ætti dómarinn ekki að dæma um annað.  Skipaðist ákærði ekki mikið við það í þessu þinghaldi, en í síðari þinghöldum hefur hann verið málefnalegri."

Þá vísaði Lárus til þess að Arngrímur hefði aflað sönnunargagns og lagt  það fram. „Þetta er rétt," segir Arngrímur. „Dómarinn fann á netinu mynd af ákærða á tali við lögreglumenn fyrir framan bandaríska sendiráðið.  Hann prentaði hana út og lagði fram í þinghaldi 10. mars.  Jafnframt var ákærði spurður hvort þetta væri hann og hvort myndin væri tekin 4. nóvember.  Ákærði kannaðist við að myndin væri af sér en mundi ekki eftir því hvort hún væri tekin þennan dag.  Hann hefði hins vegar staðið á sama stað og myndin sýnir þegar hann var handtekinn 4. nóvember 2010.  Ef til vill hefði verið réttara af dómaranum að beina því til ákæruvaldsins að prenta út myndina og leggja hana fram en það getur á engan hátt valdið vanhæfi dómarans þótt hann hafi gert það sjálfur."

Hæstiréttur tekur undir þetta og segir, að þótt það sé hvorki hlutverk dómara að afla sjálfur gagna í sakamálum né leggja þau fram komi fram í greinargerð Lárusar til Hæstaréttar, að enginn ágreiningur sé uppi í málinu um hvar hann stóð og séu aðilar málsins sammála um hvar ætlað brot hafi átt sér stað.

„Því verður ekki séð að framlagning umræddrar ljósmyndar skipti neinu varðandi sönnun um þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök. Veldur framlagning héraðsdómara á ljósmyndinni því ekki vanhæfi hans, enda þótt hún hafi ekki verið í samræmi við það hlutverk sem honum er ætlað," segir Hæstiréttur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert