„Það er byrjað að rigna hjá okkur. Það er allt annað loft á eftir,“ segir Jónas Erlendsson, bóndi í Fagradal í Mýrdal, sem kætist yfir rigningunni eins og aðrir íbúar á Suðurlandi.
Veðurstofan spáir skúraleiðingum á Suðurlandi í dag. Jónas sagði að þetta væri ekki mjög miklar rigningar en það munaði um allt. Í Mýrdalnum, þar sem hefur verið mun minna öskufall en á Kirkjubæjarklaustri, er grænn litur á túnum eftir rigningarnar.
„Askan fauk meira og minna burt í rokinu. Það litla sem eftir var rignir vonandi bara niður. Grasið hreinkast mjög vel og það er allt annað fyrir skepnur að bíta núna,“ sagði Jónas.