Fréttaskýring: Margir þegar farnir

Helstu nauðsynjavörum hlaðið í bíl við verslun KjarVal á Kirkjubæjarklaustri.
Helstu nauðsynjavörum hlaðið í bíl við verslun KjarVal á Kirkjubæjarklaustri. mbl.is/Ernir

Margir velta fyrir sér hvaða forsendur sé miðað við þegar ákveðið er að flytja fólk á brott frá svæðum sem eru í hættu vegna hamfara eins og öskufalls. Ljóst er að þeir sem eiga við sjúkdóma í öndunarfærum að stríða þurfa að gæta sín mjög. En kemur til greina að flytja alla íbúa á brott ef aðstæður versna skyndilega vegna öskufalls, rýma heil svæði af heilsufarsástæðum?

Sýslumaðurinn á Hvolsvelli fer með yfirstjórn almannavarna á verst leika svæðinu, Skaftárhreppi. Kristín Þórðardóttir, fulltrúi hjá sýslumannsembættinu á Hvolsvelli, bendir á að fulltrúar heilbrigðisyfirvalda komi að ákvörðunum almannavarnanefndar.

„Við rýmum ekki svæði af þessum ástæðum nema heilbrigðisyfirvöld segi okkur að gera það,“ segir Kristín. „Hingað til hafa þau ekki talið að áhrifin af öskunni væru svo heilsuspillandi að þörf sé á rýmingu.“ Rýming sé mikið inngrip í líf fólks og valdboð af slíku tagi verði að byggjast á því að fólk sé í bráðri hættu. Hún bendir auk þess á að margir séu þegar farnir af svæðinu sem verst hefur orðið úti, ekki síst fólk með börn og aðrir sem ekki þurftu að sinna brýnum störfum.

Aðgerðastjórn almannavarna í Austur-Skaftafellsssýslu er á hendi lögreglunnar á Höfn í Hornafirði. Einar Sigurjónsson, varðstjóri á staðnum, segir að verulegt öskufall hafi orðið í Freysnesi og Skaftafelli en samt mun minna en á Klaustri.

Best að halda sig heima og þétta rifur

Enn sem komið er hefur gosmökkurinn fyrst og fremst valdið tjóni í vestursýslunni, vindáttir hafa beint öskunni suður og vestur. En menn væru á tánum, sagði Einar. Jafnvel þótt fljótt drægi úr öskufalli gæti öskufjúk valdið miklum vanda í roki talsvert löngu eftir að gosinu lýkur, magnið væri svo mikið.

„Ég veit eiginlega ekki hvað þyrfti að koma til ef ákveðið væri að rýma svæði í öskufalli, það væru mjög róttæk viðbrögð,“ segir Einar. „Þá yrði að vera orðið algerlega ólíft á svæðinu. Menn verða alltaf að vega og meta hvort fólk er eitthvað betur komið ef það er flutt á brott. Þetta er töluvert umstang, fólkið þarf þá auðvitað að fara út í öskubylinn ef við rýmum.

En ef það heldur kyrru fyrir í híbýlum sínum, kyndir vel til að auka aðeins yfirþrýstinginn, gætir þess að hafa allt lokað og þéttir glugga með límbandi, er því engin hætta búin. Þetta eru bestu viðbrögðin.“

Um 20 þúsund fjár

Skaftárhreppur hefur fengið á sig mesta ösku að þessu sinni og aftur verður Álftaver illa úti en sama var upp á teningnum í Eyjafjallagosinu í fyrra. Mikil sauðfjárrækt er á svæðinu, líklega um 20 þúsund fjár.

Jón Bjarnason landbúnaðaráðherra sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gær að útilokað væri að flytja fé frá bæjum sem verst hefðu orðið úti í gjóskufallinu. Um væri að ræða svæði sem væri laust við sauðfjársjúkdóma og því ekki auðvelt að flytja fé þaðan á annað svæði og hafa þar uns öskufallið dvínaði. En ekkert væri að kjötinu af skepnum frá öskusvæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert