Rétt eftir klukkan sex á laugardagskvöld birti Jón Frímann Jónsson færslu á vefsvæði sínu undir yfirskriftinni „Eldgos líklega að hefjast í Grímsfjalli.“
Jón Frímann byggði skrif sín á gögnum Veðurstofu Íslands sem hann fylgist grannt með daglega. Færslan vakti athygli blaðamanns fréttavefjar Morgunblaðsins, mbl.is, sem grennslaðist fyrir um málið hjá Veðurstofu Íslands og kl. 18:45 birtist á mbl.is frétt um að eldgos væri að hefjast. Um stundarfjórðungi síðar sendu almannavarnir út tilkynningu sama efnis.
Jón Frímann hefur um árabil haldið úti vefsvæði um jarðskjálfta og eldhræringar á Íslandi. Eftir eldgosið í Eyjafjallajökli fann hann fyrir miklum áhuga útlendinga og hefur upp frá því skrifað á ensku. Hann hefur safnað um sig miklum fjölda fylgismanna en heimsóknir á hverjum mánuði eru um fimmtíu þúsund, þ.e. þegar lítið sem ekkert er að gerast. Frá því gos hófst í Grímsvötnum hafa heimsóknir verið um og yfir þrjátíu þúsund á sólarhring.
Jón heldur raunar úti tveimur síðum, einni á íslensku og annarri á ensku. „Eftir Eyjafjallajökulsgosið ákvað ég að setja upp þetta enska blogg svo útlendingar gætu fylgst með því mér þótti upplýsingagjöf til fólks erlendis ekki nægilega góð um það sem var að gerast,“ segir Jón sem reynir að uppfæra síðu sína reglulega með nýjum upplýsingum.
Af athugasemdunum má sjá að bæði er um að ræða fólk sem hefur brennandi áhuga á jarðvísindum líkt og Jón Frímann og eru þá skoðanaskipti um gang mála. Einnig eru aðrir sem eru afla sér upplýsinga og spyrja almennra spurninga um gosið og áhrif þess, t.d. á flugsamgöngur.
Sjálfur er Jón Frímann svo með mæla á Hvammstanga og við rætur Heklu og fylgist því sjálfur grannt með því sem gerist í iðrum jarðar.
Útlendingar taka virkan þátt í upplýsingaleit og birta öskukort af erlendum síðum, rifja upp fyrri gos og spá í framtíðina.