„Maður sér að þvílíkar hamfarir hafi verið þarna, því allur jökullinn er alveg kolbikasvartur,“ segir Kristján G. Kristjánsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Mountain Taxi, sem fór að skoða aðstæður í Grímsvötnum í návígi í nótt. Hann segir að þykkt öskulag hafi þekið allan jökulinn.
„Við vissum að þetta var að minnka og við vildum sjá restina af þessu.
Og það kom í ljós að þetta virtist vera búið,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Um 20 manna hópur fór saman upp á jökulinn í nótt. Að sögn
Kristjáns lagði hópurinn af stað á fjórum jeppum frá Laugarvatni um kl. 22 í gærkvöldi
og var hann kominn
að gosstöðvunum á fjórða tímanum í nótt.
Kristján, sem er reyndur ferðamaður, hefur margoft heimsótt svæðið. Hann segir það sérstaka upplifun að horfa á kolsvartan jökulinn.
„Það var búið að rigna svo mikilli ösku að við vorum að keyra á kolsvörtum jöklinum. Alla leið þaðan sem við fórum upp á Tungnárjökul, fyrir ofan Jökulheima, en þar var svört aska.“ Aðspurður segir hann að um 30 til 40 km langur kafli að Grímsvötnum hafi verið kolsvartur.
Kristján segist hafa séð eldingar og hvíta bólstra stíga til himins á leiðinni að jöklinum. Þegar hópurinn ók upp á hann hafi gufusprengingar heyrst en svo hafi allt nánast dottið í dúnalogn á jöklinum. Þar var veður stillt, um 10-12 stiga frost og mistur í loftinu. Annars hefði verið heiðskírt að sögn Kristjáns.
Þegar hópurinn kom að Grímsvötnum þá sá hann eina og eina gufusprengingu. „Það komu kannski tveir smá dynkir á meðan við vorum þarna.“
Aðspurður segir hann að menn hafi verið örlítið órólegir, enda eldstöðvar óútreiknanlegar. Menn hafi þar af leiðandi ekki staldrað lengi við, eða í um 20 mínútur við gíginn. Hópurinn sneri svo til baka í morgun.
„Við erum fyrst og fremst fegnir fyrir hönd bændanna og íbúanna á öllu Suðurlandi að þetta virðist vera búið,“ segir Kristján að lokum.