Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað fyrirtæki og tryggingafélag af kröfu manns, sem hlaut kalsár þegar hann var við vinnu í frystilest í mars á síðasta ári.
Maðurinn fékk kalsár á fingur beggja handa og á tær þegar hann starfaði við uppskipun úr frystilest frystitogara.
Fram kom í málinu, að maðurinn fékk afhenta sérstaka vettlinga, sem notaðir eru við vinnu af þessu tagi, en virðist ekki hafa notað þá.
Þá var haft eftir starfsmanni hjá fyrirtækinu, að hann hefði unnið þar í 20 ár en sjaldan hafa séð latari starfsmann en umræddan mann. Menn ynnu sér til hita í frystilestum en þessi maður hefði sífellt verðið að hlaupa uppá dekk til að hlýja sér og verið eini starfsmaðurinn sem hafi gert það.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, að hvorki væri hægt að rekja líkamstjón mannsins til fyrirtækisins, starfsmanna þess né atvika sem fyrirtækið bæri ábyrgð á. Þá taldi dómurinn ekki að kalið gæti talist slys samkvæmt vátryggingaskilmálum um slysatryggingu launþega.