Reyndu að hafa áhrif á dómara

Björn Bjarnason, fyrrvarandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrvarandi dómsmálaráðherra. Rax / Ragnar Axelsson

Gagnrýni Baugsmanna á lögreglu, ákæruvaldið, dómsmálaráðherra og aðra stjórnmálamenn þjónuðu pólitísku markmið ekki síður en að því að hafa áhrif á dómara sem áttu að dæma í málinu. Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálráðherra, en í dag kom út bók hans „Rosabaugur yfir Íslandi“, en hún fjallar um sögu Baugsmálsins.

Í bókinni segir að eftir að tölvubréfum var stolið frá Jónínu Benediktsdóttur hafi þeim verið beitt „eins og gjöreyðingarvopni“ af hálfu Baugsmanna þar til málinu lauk í hæstarétti. „Pólitískir óvinir Davíðs [Oddssonar] urðu vinir Baugs. Undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur tók Samfylkingin höndum saman við Baugsmenn. Af hálfu Samfylkingarinnar var kosningabaráttan vorið 2003 háð undir eigin merkjum og Baugs.“

Björn segir að Baugsmenn hefðu notað auð sinn til að reyna að koma sér á kné á pólitískum vettvangi með afskiptum af prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Björn segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið af sér atlögu Baugsmanna og Samfylkingarinnar. „Það tók hins vegar að halla undan fæti hjá flokknum, eftir að hann fór í ríkisstjórn með Samfylkingunni.“

Björn fjallar í bókinni um skipan hæstaréttardómara, en skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Jóns Steinars Gunnlaugssonar var umdeild á sínum tíma. Björn segir að skipun Ólafs Barkar hafi verið túlkuð til marks um dvínandi áhrif Markúsar Sigurbjörnssonar sem óskoraðs forystumanns í hópi hæstaréttardómara með aðstoð Gunnlaugs Classens.

„Við  skipan Ólafs Barkar og þegar Geir H. Haarde skipaði Jóns Steinar Gunnlaugssonar í hæstarétt urðu gamlir samherjar að hatrömmum andstæðingum,“ skrifar Björn.

Björn gagnrýnir rannsóknarnefnd Alþingis og segir að hún hefði í skýrslu sinni átt að fjalla um Baugsmálið. „Gagnlegt hefði verið að fá siðferðilegt og stjórnsýslulegt mat undir merkjum rannsóknarnefndar alþingis á hiki opinberra eftirlitsmanna við að ganga á hólm við lögfræðinga frá öllum stærstu lögfræðistofum landsins sem störfuðu í þágu Baugs og tóku á Baugsmálinu eins og reynslan sýndi. Það hefði ekki aðeins aukið gildi skýrslunnar sjálfrar heldur einnig brugðið skýrari ljósi á aðdragenda og orsök hrunsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert