„Við vorum náttúrulega með gesti hér á laugardagskvöldið eftir að gosið byrjaði. Það voru hér um fimmtíu manns. En það tókst að koma þeim vestur til baka sína leið á sunnudagsmorguninn,“ segir Karl Rafnsson, hótelstjóri á Hótel Klaustri á Kirkjubæjarklaustri. Eftir það hafi enginn ferðamaður komið á hótelið, einungis fréttamenn.
Karl segir að öll gisting hafi verið afpöntuð á hótelinu síðan gosið hófst, þ.e. frá sunnudegi og til dagsins í dag, eða pantanir verið fluttar til. En hins vegar sé hann ekki farinn að sjá neinar afpantanir fram í tímann. „Það sem fór verst með okkur í fyrra var röskun á flugi. Á meðan flugið helst í lagi þá kannski hefur maður ekki stórar áhyggjur. Maður vonar svo bara að þetta fari nú ekki að verða árlegur viðburður.“
„Eðlilegt líf er auðvitað að færast yfir. Nú taka bara við hreingerningar og frágangur eftir þetta. Það er rosaleg vinna framundan hjá okkur í þeim efnum. Þetta auðvitað skilur eftir sig slóð hér um allt,“ segir Karl aðspurður um framhaldið. „Að vísu vorum við það heppin hér á mánudaginn að það var hvasst utandyra þannig að nær allt sem var á stéttinni og á götum fauk í burtu. Sömuleiðis það sem var á þökunum. En eftir situr samt heilmikið.“