Vegamálastjóri ákvað nýlega að veita aukalega 30 milljónum króna til viðhalds á malarvegum á sunnanverðum Vestfjörðum. Með því er vænst að vegirnir verði í heldur betra ástandi í sumar en verið hefur undanfarin ár.
Í frétt frá Vegagerðinni segir að rétt sé að taka fram að þetta valdi engri byltingu en bæti ástandið nokkuð. Féð verður notað á Dynjandisheiði, Vestfjarðavegi, Ketildalsvegi, Örlygshafnarvegi og víðar.
Það sem til stendur að gera á sunnanverðum Vestfjörðum er að úr hefðbundinni viðhaldsfjárveitingu verður lokið við mölburð á Örlygshafnarvegi að Kollvíkurvegi. Þá er einnig áætlað að styrkja Vestfjarðaveg í Gufudalssveit um Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Hluti þessara aðgerða er hafinn.