Sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar

mbl.is/hag

Náttúruauðlindir Íslands eiga að vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar sem beri að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum. Þetta er á meðal þeirra 10 greina sem A-nefnd Stjórnlagaráðs mun kynna til viðbótar um mannréttindi á opnum ráðsfundi í dag.

Í greininni um náttúruauðlindirnar segir ennfremur að enginn geti fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því megi aldrei selja þær eða veðsetja.

Fram kemur í tilkynningu að tillagan sé í samræmi við skýra kröfu sem hafi komið fram á Þjóðfundi 2010 um að skilgreina eigi í stjórnarskrá að náttúruauðlindir séu eign þjóðarinnar og að arður af nýtingu þeirra renni að meginhluta til hennar. 

Nefndin kynnir enn fremur nýjar greinar um t.d. náttúruvernd og heilbrigðisþjónustu. Fundurinn hefst kl. 13.

B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir á fundinum 13 greinar til viðbótar um störf Alþingis við þær 16 sem hafa nú þegar verið lagðar fram. Þar er m.a. tillaga um takmörkun á setutíma forsætisráðherra.

„Þá er lagt til nýtt ákvæði um stjórnarmyndun. Samkvæmt henni fer stjórnarmyndun fram innan veggja þingsins með milligöngu forseta Alþingis sem leggur fram tillögu um skipan forsætisráðherra eftir samráð við þingflokka og alþingismenn. Þingið greiðir síðan sjálft atkvæði um tillöguna. Forsætisráðherra skipi í kjölfarið aðra ráðherra og skipti störfum með þeim.

Tillagan byggist m.a. á skipan í Svíþjóð og Þýskalandi. Samhliða tillögu um stjórnarmyndun er lagt fram nýtt ákvæði um að leggja megi fram á Alþingi tillögu um vantraust á forsætisráðherra eða einstaka ráðherra. Nefndin leggur enn fremur fram til afgreiðslu inn í áfangaskjal tillögur sem kynntar voru á síðasta ráðsfundi um eftirlit Alþingis o.fl. Nefndin hefur þar með lagt fram nánast fullbúinn kafla um hlutverk og stöðu Alþingis, að fjárstjórnarvalds hlutverki þess frátöldu. Þær miða að því að efla og styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og skýra ábyrgð í stjórnkerfinu.

C-nefnd flytur skýrslu um störf nefndarinnar. Vel hefur þokast í umræðum um kosningar og kjördæmaskipan, þjóðaratkvæðagreiðslur og utanríkismál undanfarna daga, en nefndin leggur ekki fram greinar til kynningar eða afgreiðslu að svo stöddu,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert