Gunnar Smári Egilsson var í dag kosinn formaður SÁÁ á aðalfundi félagsins. Þórarinn Tyrfingsson, sem verið hefur formaður SÁÁ, undanfarin 22 ár gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
„Ég hef verið formaður og yfirlæknir öll þessi ár. Mér finnst kominn tími til að gera meira á meðferðarsviðinu og fela öðrum að hefja nýja sókn í félags-og forvarnarstarfi,” sagði Þórarinn á vef SÁÁ en hann mun áfram gegna starfi yfirlæknis og framkvæmdastjóra meðferðarsviðs SÁÁ.
„Hlutverk okkar sem tökum við keflinu af Þórarni er annars vegar að verja þann mikla árangur sem samtökin hafa náð og hins vegar að þróa starfið áfram,” sagði Gunnar Smári Egilsson, nýkjörinn formaður. “Þótt mikið hafi áunnist eru mörg verk óunnin.”
Auk Gunnars voru kosin í framkvæmdastjórn samtakanna þau Arnþór Jónsson, Björn M. Sigurjónsson, Einar Már Guðmundsson, Estrid Þorvaldsdóttir, Freyr Eyjólfsson, Heiður Gunnarsdóttir, Hekla Jósepsdóttir og Maríus Óskarsson.