Íslendingar eru friðsamasta þjóð heims, að mati Institute for Economics and Peace, sem árlega reiknar út alþjóðlega friðarvísitölu sem birt er í tengslum við leiðtogafund G8 ríkjanna.
Ísland var í efsta sæti á lista stofnunarinnar fyrir fjármálakreppuna en lækkaði í 4. sætið þegar búsáhaldabyltingin braust út. Í næstu sætum eru Nýja-Sjáland, Japan, Danmörk, Tékkland, Austurríki, Finnland, Kanada, Noregur og Slóvenía.
Minnstur friður er í Norður-Kóreu, Afganistan, Súdan, Írak og Sómalíu. Alls eru 153 ríki í vísitölunni.
Stofnunin segir hins vegar, að þriðja árið í röð hafi ófriður aukist í heiminum og hætta sé einkum á að upp úr sjóði í Kína vegna efnahagslegra átaka. Einnig megi rekja uppreisnir í Arabaríkjum til efnahagslegra þátta, þar á meðal hækkandi matarverðs.
Jákvæð þróun eigi sér þó stað víða. Þannig hafi samskipti nágrannaríkja almennt batnað og átök milli þeirra orðið sjaldgæfari.
Við útreikning á friðarvísitölunni er horft til 23 þátta, allt frá útgjöldum til hermála til afbrota og nágrannaerja.
Steve Killelea, stofnandi og forseti Institute of Economics and Peace, segir við Reutersfréttastofuna, að fylgjast þurfi grannt með þróun mála í Kína og hætta sé á miklum átökum ef draga fer úr hagvexti þar á næstu árum.
„Kínverska hagkerfið getur ekki vaxið endalaust og þegar bakslagið kemur gæti það skapað alvarleg vandamál," segir hann.