UNICEF á Íslandi kallar eftir forvörnum í öllum þeim málaflokkum sem tengjast barnavernd. Samtökin gagnrýnir að engar reglulegar mælingar hafi farið fram hérlendis á tíðni ofbeldis gegn börnum og enginn á vegum hins opinbera beri ábyrgð á forvörnum í þessum málaflokki.
Þetta kemur fram í skýrslu á vegum UNICEF um stöðu barna á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem heildstæð samantekt af þessu tagi er gerð um stöðu barna á Íslandi og þær ógnir sem að þeim steðja.
Í skýrslunni segir að leiða megi líkur að því að þúsundir barna á Íslandi verði á ári hverju fyrir kynferðislegu ofbeldi, heimilisofbeldi og öðru ofbeldi – en þrátt fyrir það reyni yfirvöld ekki markvisst að kortleggja vandann með reglubundnum rannsóknum og markvissri greiningu. Einungis sé haldið utan um fjölda þeirra tilkynninga sem berast til barnaverndarnefnda. Enginn opinber aðili hafi það hlutverk að berjast gegn ofbeldi á börnum – líkt og lengi hefur tíðkast varðandi áfengisdrykkju, tóbaksnotkun, umferðarslys og annað.
Í skýrslunni er fjallað um ógnir á borð við fátækt og atvinnuleysi, einelti og félagslega einangrun, slys, offitu, vanrækslu, sjúkdóma, heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og áfengi, tóbak og ólögleg vímuefni.
• Meðal annars er bent á að tilkynningum til barnaverndarnefnda hafi fjölgað nærri jafnt og þétt frá því að Barnaverndarstofa var sett á fót. Ofbeldistilkynningum til barnaverndarnefnda hefur ennfremur fjölgað mikið síðastliðin ár. Það er áhyggjuefni.
• Reikna má með því að 2000-4000 börn séu þolendur heimilisofbeldis eða búi við heimilisofbeldi, á ári hverju á Íslandi. Ef 2000 börn eru þolendur heimilisofbeldis á ári hverju, er tilkynnt um aðeins 14% þeirra til barnaverndarnefnda. Gríðarleg þörf er á rannsóknum á raunverulegu umfangi heimilisofbeldis á Íslandi. Engar formlegar forvarnir eru til gegn heimilisofbeldi – aðeins viðbrögð við ofbeldinu.
• Þar sem skýrslan tekur á ólíkustu málum tengdum börnum er einnig að finna þar upplýsingar á borð við að árið 2010 skiluðu á bilinu 15-24 þúsund börn sér ekki til tannlæknis en þjónustu skólatannlækna var hætt haustið 2002.
• Ennfremur er bent á að 5% barna á Íslandi mælist of feit og mikilvægt sé að á öllum skólastigum sé börnum boðið upp á hollan mat. Að auki verður að gera neytendum auðveldara að aðgreina holla vöru frá óhollri.
• Samræmd slysaskráning hófst árið 2001 en enn hafa ekki allir skráningaraðilar tekið til við að færa upplýsingar í skrána. Á árunum 1981-2009 létust nærri 400 börn í slysum hérlendis.
• Almenn neysla tóbaks og áfengis hefur minnkað umtalsvert meðal ungmenna á Íslandi – með markvissum aðgerðum og forvörnum. Ekki er sömu þróun að sjá í neyslu á ólöglegum vímuefnum, t.d. kannabisefnum.
Auk ógna sem steðja að íslenskum börnum almennt er í skýrslunni rýnt í stöðu ákveðinna hópa: Barna af erlendum uppruna, barna sem flosna upp úr námi, langveikra barna, barna með fötlun og barna með geðraskanir.