Amnesty International fagnar 50 ára afmæli á laugardaginn. Í tilefni af afmælinu hefur Reykjavíkurborg ákveðið að nefna Laugaveginn upp á nýtt í nokkra daga og mun borgarstjóri Reykjavíkur afhjúpa skilti með nýju heiti götunnar.
Athöfnin fer fram á horni Frakkastígs og Laugavegs á morgun, föstudag kl. 11:00.
Laugavegurinn mun heita Mannréttindavegur í þrjá daga til heiðurs hálfrar aldar baráttu Amnesty International í þágu mannréttinda. Er sú nafngift vel við hæfi því Laugavegurinn var upphaflega lagður til að auðvelda ferðir þvottakvenna inn í Laugardal. Þær gengu um langan veg með þvott á bakinu og þvoðu við erfiðar aðstæður í öllum veðrum.
Á sjálfan afmælisdaginn 28. maí hvetur Amnesty International almenning til að ganga Mannréttindaveginn og fagna því sem hefur áunnist í mannréttindabaráttunni. Gangan endurspeglar von um heim þar sem allir fá notið mannréttinda.
Hinn 28.maí 1961 birti breski lögfræðingurinn Peter Benenson grein í breska dagblaðinu The Observer. Greinina kallaði hann „Gleymdu fangarnir”. Í henni hvatti hann lesendur til að taka þátt í herferð til að fá lausa þúsundir fanga sem sátu gleymdir og yfirgefnir í fangelsum um heim allan á grundvelli friðsamlegrar tjáningar stjórnmála- eða trúarskoðana. Þessir fangar höfðu hvorki beitt ofbeldi né hvatt til þess. Þess vegna kallaði hann þá samviskufanga. Herferðin átti aðeins að standa í ár en stendur enn.